Fyrir vinnustaði

Greining og meðferð starfar mikið fyrir vinnustaði. Árekstrar, ágreiningur eða önnur vandamál milli starfsmanna á vinnustað hafa áhrif á alla í nærumhverfi þeirra. Það getur valdið starfsfólki vanlíðan og skipt vinnustaðnum í hópa sem vinna ver saman en ella væri. Verra samkomulag skilar ekki aðeins minni framleiðni, heldur einnig auknum fjarvistum og meiri starfsmannaveltu. Ósættið kostar því miklu meira en við áttum okkur á í fljótu bragði. Kostnaðurinn getur hæglega skipt milljónum króna árlega og orðspor fyrirtækis eða stofnunar skaðast verulega.

Það er ekki alltaf gott að greina hvenær fagleg og eðlileg skoðanaskipti fara úr böndunum og verða að niðurrifsafli. Oft verður lítil fjöður að hænu og víðast hvar er margt skrafað sem ekki er rétt, þegar að er gáð. Yfirmenn hafa sjaldnast aðgang að slíkum sögum, enda er eðlilegt að vandaðir stjórnendur hefji sig upp yfir slíkt umtal.

Greining og meðferð tekur að sér greiningu á samskiptavanda og starfsanda fyrirtækja og stofnana. Það er annars vegar gert með (eigindlegum) viðtölum þar sem kjarnaspurningar eru lagðar fyrir starfshópa eða úrtaki úr þeim, og hins vegar með rafrænum megindlegum könnunum. Slíkar greiningar miða að því að yfirmenn fái góða mynd af stöðunni í starfshópnum, bæði hvernig starfsmenn telja hana vera og eins hvernig hún er í raun.

Eitt alvarlegasta samskiptavandamálið fyrir vinnustaði er þegar starfsmaður upplifir einelti frá einum eða fleirum samstarfsmönnum. Hjá Greiningu og meðferð býr mikil reynsla af rannsókn eineltisásakana og lögð er áhersla á að vinna þær faglega, eins hratt og unnt er.

Höfundarréttur (c) 2015 – allur réttur áskilinn – frjálst er að hlekkja á síðuna.