CPT – cognitive processing therapy

Áfallastreituröskun (PTSD) er víða vandi. Við verðum öll fyrir áföllum einhvern tíman á lífsleiðinni. Í flestum tilvikum komumst við  yfir þau með tímanum, en ekki alltaf. Ef við erum þannig stödd að atvik sem hentu okkur fyrir margt löngu eru enn að trufla okkur daglega þá þurfum við að leita okkur aðstoðar til að koma á jafnvægi í lífi okkar á ný.

Mörgum getur reynst erfitt að þurfa að leita sér hjálpar. Að hluta til getur stolt hamlað eða hræðsla við einhvern stimpil. Meginástæðan er þó sennilega oft fólgin í því að við komum okkur upp aðferðum til að flýja vandann, og það er einmitt það sem viðheldur honum. Við forðumst það sem minnir á hann og skortir hugrekki til að ganga frá honum í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna berjumst við jafnvel daglega við ókláraðar hugsanir um atvikið. Við sjáum fyrir okkur það sem gerðist og finnum lyktina sem við fundum þegar atvikið gerðist. Þá upplifum við gjarnan mjög sterkar tilfinningar og ógn. Það er engum auðvelt.

Hjá Greiningu og meðferð er oft stuðst við Hugræna úrvinnslumeðferð sem Patricia Resick og Kathleen Chard skipulögðu (e. Cognitive Processing Therapy) (CPT). Þar er kerfisbundið farið yfir áfallið og séð til þess að úrvinnslu sé lokið að eins miklu leyti og hægt er. Flækjurnar eru leystar og þá hættir atvikið að ásækja okkur.

Hugsaðu lífið eins og veiðihjól á stöng. Kannski er línan öll í flækju, en það má samt dorga af bryggjunni. En ef við viljum eitthvað meira en kola og marhnút þá þurfum við að greiða úr línunni. Þegar flækjan er farin þá getum við kastað lengra út og náð í vænni fisk. Ef vel er að verki staðið þá getum við jafnvel farið í laxveiði. Ekki er verra að þegar flækjan er farin þá er miklu auðveldara að leysa úr öllum þessum litlu hnútum sem alltaf rata á línuna.

Þetta er einföld líking sem gerir kannski ekki CPT góð skil. Þar er unnið markvisst og skipulega með minningar og hugsanir í allt að tólf tíma. Lögð er mikil áhersla á að forðast ekki úrvinnsluna í tímum og að mæta samviskusamlega. Það getur reynt mjög á en ávinningurinn getur líka verið mikill.

Hlekkur – Síða um áfallastreituröskun (PTSD) á ensku.

Höfundarréttur (c) 2021 – allur réttur áskilinn – frjálst er að hlekkja á síðuna.